Karfa 0

Trendin 2020 - veggspjöld og huggulegheit

Nú endurtökum við leikinn frá í fyrra og deilum með ykkur ýmsu úr því sem við höfum verið að lesa um varðandi það hver verða trendin á árinu 2020, þegar kemur að huggulegum heimilum og vinnustöðum.

Trendin eru reyndar nánast jafn mörg og ólík og þeir sem setja þau fram, en það er þannig á hverju ári.

Út frá því sem við hjá Svörtum fjöðrum höfum lesið núna á síðustu dögum verða trendin á árinu 2020 eftirfarandi.
 - Smá fyrirvari samt, það eru klárlega einhverjar mótsagnir í þessum lista, sem unninn er upp úr nokkrum mismunandi greinum og frá mismunandi hönnuðum – kannski eins og alltaf snýst þetta um að velja það sem þér finnst fallegt og hentar þér, en hér koma þó trendin sem spáð er fyrir um.

Veggmálning og litapallettur

Fólk mun fara að mála meira í ljósu og hvítu heima hjá sér, hvíla litríka eða litsterka veggi en setja í staðinn litríkari list á veggina. 

Undanfarin 10 ár eða svo hefur gráa pallettan verið alls ráðandi, mikið af gráu í alls kyns tónum en grái liturinn gefur nú aðeins eftir, þó hann sé ekki alveg úti, en árið 2020 mun fólk fara meira í hlýrri liti.

Það trend sem hefur verið ríkjandi nokkuð lengi núna, að halda sig við einn lit í mismunandi tónum (t.d. grátt, ljósbrúnt/beige eða álíka) og hefur verið talið með örugg leið mun nú víkja fyrir meiri blöndun lita og því að láta heimilin endurspegla betur persónuleika íbúanna.

Litir ársins 2020

Kaldir litir víkja fyrir hlýjum litum eins og súkkulaðibrúnum, ólífugrænum,  vínrauðum og leirgulum, en þá ljósari tónum þeirra lita.

Því er spáð að blátt og grænt verði aðallitir ársins, alls kyns tónar sjávarins og djúpir skógargrænir tónar. Litatónar sem skapa tilfinningu fyrir ró, hlýju og ævintýrum.
Meðal annars vegna þess halda plöntur áfram að vera vinsælar, en þá lifandi og náttúrulega plöntur. Smáir þykkblöðungar (e. succulents) verða minna vinsælir.

Svartur verður þó alltaf í tísku.
Fallega andstæðan í svörtu og hvítu verður áfram inni þegar kemur að mynstrum, hvort sem það er í flísalögnum eða myndum á veggi, enda er það eiginlega tímalaus blanda.
Svartur verður einnig sérlega vinsæll í eldhúsum.

Bleikur verður einnig áfram inni enda þykir hann gefa bæði merki um kyrrð og glæsileika.

Veggskreytingar

Þó ákveðin tegund minimalisma sé mögulega vaxandi er líka talað um maximalisma þegar kemur að veggskreytingum.

Maximalisminn eða hámarkshyggjan snýst um að ná fram glæsileika.

Fólk verður almennt óhræddara við að blanda saman eldri og dýrari málverkum sem það kann að eiga, við ódýrari listaverk frá nýjum og upprennandi listamönnum, sem nýta sér jafnvel stafræna tækni við list sína. 

Málverk og veggspjöld verða með miklum, djörfum og skærum litum og mynstrum. Veggspjöld verða ýmis abstrakt eða djörf, skemmtileg og hugmyndarík, með alls kyns skemmtilegum myndum og skilaboðum eða texta. Geómetrísk form verða áfram vinsæl. 

Auðvitað þarf að huga að ákveðnum línum í þessu þannig að þú endir ekki í einhverri ringulreið en máltækið sem segir að minna sé meira víkur nú fyrir meira er meira, þegar kemur að veggskreytingum. 

Línulist, kvenlíkaminn, andlitsmyndir, djarft abstrakt, klippimyndir með blandaðri tækni, skapandi ljósmyndun eða ljósmyndum með blandaðri tækni, myndir af plöntum og blómum, list með skilaboðum og myndir sem minna á gamla tíma verða allt ríkjandi trend í veggjalist á árinu 2020.

 

Baðherbergi og forstofur /anddyri

Merkilegt nokk en þá eiga baðherbergi og forstofur það sameiginlegt að fá aukna athygli.

Fallegar og litríkar myndir finna sér nú í auknu mæli stað á veggjum þessara rýma og þau jafnvel gerð að litlum gallerýum.

Umhverfisvernd og sjálfbærni

Meðal annars vegna vaxandi meðvitundar fólks um að fara vel með og endurnýta þá mun fólk nú fara að blanda meira saman nýju og notuðu og láta þannig persónuleika sinn koma enn betur í ljós.

Fullkomleikinn, þar sem allt varðandi að vera glansandi fínt og rispufrítt, víkur fyrir fegurðinni í því að endurnýta hlutina og minnka sóun.

Bambus- og tágahúsgögn, dekkri viðartegundir, leður, blóm og allt náttúrulegt verður mjög sterkt trend á árinu 2020.

Málmar

Skrautmunir úr alls kyns málmum verða áfram inni, allt frá munum úr stáli og oxuðum iðnaðarmálmum yfir í bæði gull og silfur.

 ---

Í stuttu máli má því kannski segja að trend ársins 2020, þegar kemur að því að gera falleg og huggulegt í kringum sig, heima og á vinnustöðum, eigi það sammerkt að ganga út á að gera umhverfið persónulegt og veita því þægilegt útlit sem er á innblásið bæði af náttúrunni og glæsileika.

Við hjá Svörtum fjöðrum teljum þó, eins og áður, mikilvægast að hver finni sinn stíl og blandi saman myndum og munum sem hverjum og einum þykja fallegir og hafa gjarnan einhverja meiningu fyrir þá.

Hvort sem myndir eru settar á hillur, hengdar upp stakar eða heilu myndaveggirnir gerðir, þá mælum við alltaf með að fundin sé góð persónuleg blanda. Blanda af aðkeyptum myndum, eigin ljósmyndum, myndum sem börnin í fjölskyldunni hafa málað, eða öðru sem vekur góðar og hlýjar minningar, hvað sem öllum tískustraumum og trendum líður.

Við höldum svo auðvitað áfram að leggja okkur fram við að eiga handa ykkur falleg veggspjöld, einhverja góða blöndu af klassík og nýjustu trendum. Eldri færslur Nýrri færslur


Skildu eftir athugasemd

Please note, comments must be approved before they are published