Karfa 0

Marengsterta með lakkríssósu

Þessi ljúffenga marengsterta er tilvalin með sunnudagskaffinu! Hún inniheldur bragðgóða lakkríssósu sem svíkur engan, fersk jarðarber og brakandi daim sem bráðnar í munni.

Fyrir ekki svo löngu síðan fannst mér tilhugsunin um að baka marengs hræðileg - ég hafði slæma reynslu af marengsbakstri og fannst hann alltaf verið eitthvað skrýtinn, þá helst mjúkur í miðjunni. Ég veit ekki enn hvort það hafi verið ofninn, handþeytarinn eða eitthvað annað sem leiddi til þess að hann klúðraðist. Eftir að ég fjárfesti í hrærivél og frysti marengsinn eftir bakstur hefur hann alltaf heppnast! Það því mitt töfraráð til ykkar, sem ég lærði af góðri vinkonu, að frysta alltaf marengsinn eftir að hann hefur kólnað (ég set plastfilmu utan um botnana áður en þeir fara inn í frysti). Svo er einfaldlega hægt að kippa honum út úr frystinum þegar þú ætlar að nota hann, örfáum mínútum áður en þú setur rjómann á milli. Það er líka ekkert slæmt að eiga tilbúna marengsbotna í frysti ef maður þarf að redda köku í flýti :)

veggspjöld

 Marengsbotnar

 • 5 eggjahvítur
 • 100 g sykur
 • 100 g púðursykur
 • 1 tsk lyftiduft
 • 4-5 dl Rice Krispies

Aðferð

 1. Stilltu ofninn á 130°C blástur.
 2. Þeyttu eggjahvítur, sykur og púðursykur vel saman. Bættu lyftiduftinu við í endann þegar blandan er nánast tilbúin og hrærðu saman.
 3. Settu Rice Krispies út í blönduna og blandaðu rólega saman.
 4. Skiptu blöndunni í tvennt og settu á tvær ofnplötur. Gagnlegt er að teikna upp tvo hringi á bökunarpappír svo botnarnir verði u.þ.b. jafnstórir.
 5. Bakaðu marengsbotnana í 50-60 mínútur (getur verið mismunandi eftir ofnum).

veggspjöld

Lakkríssósa

 • 75 g bingókúlur (hálfur poki)
 • 25 g súkkulaði (t.d. suðusúkkulaði eða annað súkkulaði sem þú átt)
 • 0,5 dl rjómi

Annað

 • 250 g jarðarber
 • Daim kurl (einn poki) - eða annað nammi sem þér dettur í hug.

Aðferð

 1. Hitaðu bingókúlur, súkkulaði og rjóma saman í potti þangað til öll hráefnin hafa blandast vel saman og láttu blönduna svo kólna.
 2. Þeyttu rjómann.
 3. Skerðu rúmlega helminginn af jarðarberjunum í smáa bita og restina í tvennt.
 4. Settu smátt skornu jarðarberin út í rjómann ásamt 3/4 af daiminu og hrærðu rólega saman.
 5. Settu rúmlega helminginn af rjómablöndunni á milli marengsbotnanna og restina ofan á tertuna.
 6. Skreyttu tertuna með jarðarberjum og daimkurli og helltu lakkríssósunni yfir.
 7. Gott er að geyma marengstertuna í kæli í 3-4 klst. áður en hún er borin fram.
 8. Njóttu :)

veggspjöldEldri færslur Nýrri færslur