Karfa 0

Gómsætir kanilsnúðar

Hver elskar ekki dúnmjúka, nýbakaða kanilsnúða?

Þessir eru ótrúlega góðir, og ekki skemmir fyrir að þeir líta ekki út eins og hefðbundnir kanilsnúðar (þó þeir bragðist þannig!) Þessir snúðar eru bundnir í hnút sem gerir þá einstaklega skemmtilega.

Innihald

 • 500 g hveiti
 • 2 msk sykur
 • 1 msk þurrger (12 g)
 • 1 tsk salt
 • 1,5 tsk vanilludropar
 • 90 g smjör (skorið í bita)
 • 300 ml volg mjólk

Fylling

 • 70 g mjúkt smjör
 • 1 dl sykur
 • 2 tsk kanill
 • 1 egg (til að pensla með)
 • 2 msk perlusykur (til skrauts)

Aðferð

 1. Blandaðu öllum þurrefnum saman í skál og myldu smjörið vel saman við þurrefnin. Ég mæli með að nota hrærivél (ef þú átt) - sem hrærir brauðdeig.
 2. Gerðu holu í miðjuna á blöndunni og helltu mjólk út í.
 3. Settu deigið á hveitistráð borð og hnoðaðu saman (óþarfi ef þú notar hrærivél).
 4. Láttu deigið lyfta sér undir viskastykki í a.m.k. 2 klukkustundir.
 5. Stilltu ofninn á 220°C á undir- og yfirhita.
 6. Blandaðu saman sykri og kanil.
 7. Flettu deigið út á hveitistráðu borði þannig úr verði ferhyrningur. Því þykkara sem deigið er, því færri snúða færðu.
 8. Penslaðu mjúka smjörinu á deigið og stráðu kanilsykrinum yfir.
 9. Brjóttu deigið saman í tvennt og skerðu í lengjur. Hnýttu hverja lengju varlega í hnút (æfingin skapar meistarann!) og settu á bökunarpappír á ofnplötu. Einnig er hægt að rúlla deiginu upp eins og venjulega og skera í sneiðar. Láttu snúðana lyfta sér í 20-30 mín.
 10. Penslaðu snúðana með egginu og stráðu hrásykri yfir. Bakaðu í 10-15 mínútur (fer eftir stærð snúða og gerð ofns).
 11. Njóttu :)

Uppskrift fengin úr Kökublaði Gestgjafans '16, með minniháttar breytingum.Eldri færslur Nýrri færslur